Netafrit - Örugg afritun yfir Netið

 
Netafrit býður upp á fljótvirka og örugga afritun gagna yfir Netið. Á skömmum tíma getur þú tekið öryggisafrit af þeim skjölum sem þú vannst með yfir daginn og sent þau á netþjón til geymslu. Þú andar léttar, því gögnin þín eru geymd á tölvu víðs fjarri, fullkomlega varin fyrir forvitnum augum með öflugri dulritun. Ekkert vesen með diska eða segulbandsspólur, engin hlaup í bankahólf eða á aðra geymslustaði.

Smelltu hér til að sækja sýniseintak
Aðalskjámynd Netafrits, þar sem þú velur skrár fyrir afritið og ákveður hvert skal senda það

Hversu mikið mál er að taka afrit?

Til að taka öryggisafrit velurðu einfaldlega þau skráasöfn og/eða skrár sem þú vilt afrita, skráir stutta lýsingu, tilgreinir leyniorðið og ákveður hvert senda skal afritið. Síðan smellir þú á takka og hallar þér aftur í nokkrar mínútur meðan afritið rennur í gegn. Að lokum vistar þú þessa skilgreiningu sem sjálfstætt verkefni og næst þegar þú vilt afrita sömu gögn, tekur það enn styttri tíma. Einfaldara getur það varla orðið!

Öryggi í fyrirrúmi

Netafrit er fyrst og fremst ætlað til að vernda þig fyrir gagnatapi. En forritið má líka nota til að senda öðrum skrár í tölvupósti, í þeirri fullvissu að enginn geti kíkt í pakkann á leiðinni. Móttakandinn sækir einfaldlega Netafrit eða SECopen á vefinn til að opna sendinguna frá þér.

Netafrit hentar líka sem einfalt útgáfustjórnunarkerfi (e. version-control), þar sem þú tekur reglulega afrit af skrám sem breytast ört. Þá áttu margar útgáfur af skránum aftur í tímann og getur kallað þær fram ef með þarf.

Skráð eintak af Netafriti leyfir þér að dulrita hvaða skrá sem er. Það hjálpar þér að vernda viðkvæm gögn, sem þú vilt ekki að neinn komist í eða til að senda öðrum í gegnum opið net eins og Internetið.

Síðast en ekki síst, hentar Netafrit til að vista gömul gögn á samþjappaðan og öruggan hátt. Forritið notar ZIP-skrár fyrir gagnaþjöppun en ólíkt forritum sem fást við þær (t.d. Winzip og PKzip), býður Netafrit upp á margfalt öruggari dulritun til að vernda gögnin.

Til hvers að taka öryggisafrit?

Hversu verðmæt eru gögnin í tölvunni þinni? Í mörgum tilvikum eru gögnin mun verðmætari en tölvan sjálf. En mannleg mistök, tölvubilanir, tölvuvírusar, þjófnaður, húsbruni og náttúruhamfarir gera ekki boð á undan sér og eina raunhæfa tryggingin er að taka reglulega afrit af þeim gögnum sem skipta þig einhverju máli. Þú getur alltaf stillt upp stýrikerfinu og hinum ýmsu forritum aftur, en þú átt bara tvo valkosti varðandi gögnin þín: Að endurheimta þau úr öryggisafriti eða skrá þau inn aftur.

Flestir vinna við fjöldann allan af skjölum og gagnaskrám á hverjum degi og vildu ógjarnan sjá á eftir þeirri vinnu. Ein besta leiðin til að tryggja sig er að taka daglega afrit af mikilvægum skjölum sem breyst hafa yfir daginn. Þá getur þú alltaf fundið það sem þú glatar, en þarft ekki að taka óþarflega stórt afrit í hvert sinn. Netafrit hentar vel til þess, en að sjálfsögðu getur þú notað það líka til að taka stærri afrit, svo fremi að aðgangur að netþjóni á staðarneti eða gagnageymsluþjóni á Internetinu sé sæmilega hraðvirkur og nægt geymslurými til staðar.

Mikilvægi reglulegrar öryggisafritunar verður seint ofmetið. Spurðu bara einhvern sem hefur upplifað tölvuhrun nýlega og uppgötvaði í leiðinni að ekkert nýlegt afrit var til af gögnunum. Spurðu líka þann sem hefur séð á eftir tölvunni í innbroti og keypt hana aftur frá "undirheimunum". Uppsett lausnargjald var sennilega ekki í lægri kantinum, en samt borgaði sig að greiða það í stað þess að skrá öll gögnin upp á nýtt. Reglubundin öryggisafritun er sennilega mun ódýrari!

Helstu kostir Netafrits

Netafrit er lipurt í notkun og helstu kostir þess eru:

  • Fljótleg og auðveld innsetning.
  • Forritið er allt með íslensku viðmóti og hjálpartexta.
  • Mjög auðvelt er að velja skrár og skráasöfn (möppur) til afritunar. Ef þú getur notað Windows Explorer, getur þú notað Netafrit.
  • Vista má verkefnaskilgreiningar og kalla þær fram aftur síðar.
  • Öflug, 128 bita AES dulritun tryggir að enginn óviðkomandi geti skoðað afritið. En það þýðir líka að þú mátt alls ekki gleyma leyniorðinu ...
  • Þú getur valið að flytja afritið á einn eða fleiri staði í einu: Í geymslusafn, senda það á FTP-netþjón eða sem viðhengi í tölvupósti.
  • Ítarleg skýrsla birtist yfir þær skrár sem afritið inniheldur, og má raða henni á ýmsa vegu og vista hana í XML eða textaskrá.
  • Forritið leyfir vistun afrita á ZIP-formi, með eða án leyniorðs ef þú þarft að senda öðrum skrár. Þetta hentar fyrir léttvægari gögn, en við mælum frekar með dulrituðum öryggisafritum og að móttakandinn nái sér í Netafrit eða SECopen til að opna sendinguna frá þér.
  • Ef þú þarft að endurheimta skrár, er fljótlegt að velja afrit og tilgreina hvaða skrár á að vista og hvar.
  • Mikill sveigjanleiki varðandi tengingar við ólíkar tölvur. Nota má DOS-tölvur, Mac-tölvur, Unix-tölvur, IBM iSeries og jafnvel IBM stórtölvur fyrir gagnageymslu. Eina krafan er að viðunandi FTP-netþjónn sé uppsettur á henni.
  • Fjölmargir valkostir sem hafa áhrif á útlit og vinnslur — þú ert við stjórnvölinn!

Hvernig vinnur Netafrit?

Netafrit les þær skrár sem þú tilgreinir, þjappar þeim í safnskrá, dulritar hana og sendir að lokum í geymslu. Það getur verið ýmist á staðarneti eða FTP-netþjóni á Internetinu. Flestir Internet-þjónustuaðilar bjóða upp á heimasvæði sem þú getur nýtt til að byrja með. Sem dæmi, býður Síminn upp á Safnið, sem er 500 Mb fyrir alla Internet-áskrifendur og kostar tiltölulega lítið aukalega ef þú þarft meira pláss.

Netafrit notar ZIP-skráaformið sem allir þekkja, fyrir gagnaþjöppun en dulritunin í forritinu er svo öflug að enginn getur skoðað afritið þitt nema hafa rétta leyniorðið.

Þegar endurheimta þarf skrá, er fyrst athugað hvort afritið sé til á staðbundnu drifi. Ef það finnst ekki, er það sótt á FTP-netþjóninn. Síðan er afritið afkóðað með viðeigandi leyniorði og opnað. Þá getur þú valið einstaka skrár eða allar og vistað þær þar sem þú kýst. Dæmi um þetta sérðu á skjámyndinni hér að neðan.

Smelltu hér til að sækja sýniseintak
Til að endurheimta skrár, er auðvelt að kalla fram afritið, velja skrárnar og vista hvar sem er

Hvað kostar Netafrit?

Skráð notendaleyfi fyrir Netafrit fæst gegn hóflegu gjaldi, ásamt uppfærslurétti í 1 eða 3 ár í senn. Kynntu þér verð og valkosti því Netafrit kostar minna en þú heldur. Vanti þig geymslupláss á FTP-þjóni fyrir afritin, bjóðum við upp á geymsluþjónustu á hagstæðu verði, með sjálfvirkum áminningum og ýmsum öðrum valkostum.

Ef þú leigir geymslupláss hjá okkur, fylgir notendaleyfi fyrir Netafrit með.

Ókeypis sýniseintak

Viltu tryggja öryggi mikilvægustu gagnanna þinna? Þú getur sótt ókeypis sýniseintak af Netafriti, sem inniheldur allar helstu aðgerðir forritsins. Sýniseintakið þó takmarkað, því það vinnur aðeins með 300 skrár eða 3Mb í einu og sumar aðgerðir eru lokaðar. Auglýsingar birtast í forritinu og ábending um að skrásetja eintak birtist í nokkrar sekúndur þegar forritið er ræst eða ef farið er yfir stærðarviðmið við val á skrám. Þrátt fyrir þessar takmarkanir getur þú haft mikið gagn af sýniseintakinu og er þér frjálst að nota það eins lengi og þér hentar.

Ítarlegar leiðbeiningar á Windows HTML-help formi fylgja með forritinu og hægt er að sækja notendahandbók á PDF-formi (39 blaðsíður) sem hentar fyrir útprentun.

En ef þú vilt nýta þér alla möguleika forritsins og stuðla um leið að áframhaldandi þróun þess, skaltu panta notendaleyfi. Það innifelur allar nýjungar á tímabilinu. Þegar afnotagjaldið hefur verið greitt, færðu sent notendanafn og leyfisnúmer, skráir það inn og allar kostir Netafrits koma í ljós.

Síðast en ekki síst, ef þér líst vel á Netafrit, hvetjum við þig til að senda forritið til vina og kunningja. Láttu þá hafa dreifiskrána sem þú náðir í (Netafrit_innsetning.exe) eða vísaðu þeim á þennan vef og segðu þeim frá reynslu þinni af forritinu. Þú getur líka sent meðmælaskeyti til þeirra.

Sérstök aðlögun og samstarf

Viltu auglýsa á nýstárlegan hátt? Við bjóðum sérmerktar útgáfur af forritinu sem þú getur dreift óspart til viðskiptavina þinna. Það leyfir síbreytilegar auglýsingar gegnum Netið, sem þú stjórnar sjálfur. Þar getur þú kynnt sértilboð og annað sem höfðað gæti til væntanlegra kaupenda.

Einnig bjóðum við hugbúnaðarframleiðendum og Internet-þjónustuaðilum samstarf, þar sem Netafrit er sérsniðið að þeirra lausnum og dreift með til notenda. Hafðu samband ef það hentar þér.

Sem dæmi um slíka aðlögun, þá höfum við gert sérstaka útgáfu fyrir Borgun, sem hefur verið notuð um árabil til að senda inn viðkvæm gögn frá söluaðilum til Borgunar. Úrvinnsla í slíku ferli getur svo verið al-sjálfvirk.

Tæknimál

Til að svala forvitni þeirra sem velta tækninni mikið fyrir sér, upplýsist hér með að Netafrit er forritað í Delphi frá Borland, notar fjöldann allan af rútínusöfnum frá TurboPower og fleiri þekktum hugbúnaðarframleiðendur. Netafrit hefur verið þaulprófað á ýmiss konar "plattformum" og á móti ótal FTP-netþjónum af öllum stærðum og gerðum. Innsetningarforritið heitir Inno Setup frá jrsoftware.org en viðmótið í því þýddum við sjálfir. Mælum við eindregið með þessum aðilum og frábærri framleiðslu þeirra.

 

© 2002-2009, Hugmót ehf - Allur réttur áskilinn