Sérhæfðir tímaþjónar

 

Sérhæfðir tímaþjónar eru netbúnaður sem sérstaklega þjónar því hlutverki að miðla réttum tíma til annarra tölva. Til að tryggja afköst og nákvæmni, gera þessir þjónar nánast ekkert annað.

Til að geta miðlað sem réttustum tíma, nota slíkir tímaþjónar yfirleitt Stratum-0 tímaþjóna til fínstillingar, t.d. atóm-klukkur gegnum langbylgjusendingar eða tímamerki frá staðsetningar-gervihnöttum (GNSS). Nákvæmnin getur verið frá nokkrum millisekúndum upp í +/- 100 nanósekúndur (einn tíu-milljónasti úr sekúndu) miðað við UTC. Tímaþjónar sem tengjast beint við áreiðanleg viðmið, eru jafnan flokkaðir sem Stratum-1.

Einnig eru til sérhæfðir tímaþjónar sem nota aðra Stratum-1 tímaþjóna til fínstillingar gegnum NTP samskiptamátann. Þeir eru ódýrari og um leið aðeins ónákvæmari en Stratum-1 tímaþjónar, en sjá oft um að afgreiða kúfinn af tímabeiðnum frá SNTP og NTP biðlurum. Nákvæmni þeirra er um 1-2 ms og flokkast gjarnan sem Stratum-2 tímaþjónar.

Helstu kostir

Helsti kostur sérhæfðra tímaþjóna, er að það fer lítið fyrir þeim og þeir þurfa lítið viðhald. Eftir að þeir hafa einu sinni verið settir upp, þarf varla að líta á þá svo mánuðum eða árum skiptir. Þeir einfaldlega samstilla sig reglulega við sitt viðmið og sjá síðan um að miðla réttum tíma til sinna "viðskiptavina".

Annar kostur slíkra tímaþjóna, er að þeir ráða við mikið álag, allt frá 200 upp í 10.000 beiðnir/sek. Auk þess eru þeir yfirleitt útbúnir með mjög áreiðanlegum innri klukkum og geta því miðlað "réttum" tíma jafnvel þótt þeir missi samband tímabundið við viðmið sitt. Stöðugleikinn kemur þó í nokkrum gæðaþrepum og fer verðið eftir því:

  • TCXO = Temperature-Compensated Crystal Oscillator (frávik ca. 10 ms/dag)
  • OCXO = Oven Compensated Crystal Oscillator (frávik ca. 1-2 ms/dag)
  • Rubídíum klukka (frávik ca. 1 míkrósekúnda á dag)
  • Cesíum klukka (frávik minna en 1 nanósekúnda á dag)

 

Stratum-2 tímaþjónar

Eins og áður var nefnt, henta Stratum-2 tímaþjónar sem master-tímaþjónar á staðarnetum fyrirtækja, sem gera hóflegar kröfur um nákvæman tíma. Hér eru nokkur dæmi:

  • Linux NTPD er geysilega lærdómsrík leið til að kynnast NTP-staðlinum, við það að búa til Stratum-2 tímaþjón. Síðar má bæta við GPS-móttakara og jafnvel langbylgju-móttakara til að gera tilraunirnar enn meira spennandi. Nákvæmnin getur í flestum tilfellum orðið meiri en +/- 1 millisekúnda og jafnvel enn betri. Kostnaður er oft lítill því nýta má eldri tölvur í þetta verkefni.

  • Chrony NTP-server býður upp á svipaða eiginleika og NTPD, en hentar betur þegar samband við Internetið er stopult eða óáreiðanlegt. Sjá samanburð á Chrony og öðrum NTP-lausnum. Chrony er smátt og smátt að verða vinsælli meðal Linux notenda. Helsti gallinn er sá, að Windows útgáfa er ekki enn fáanleg.

Stratum-1 tímaþjónar

Stratum-1 tímaþjónar eru tengdir við atóm-klukkur eða staðsetningar-gervihnetti (GNSS) og því æði nákvæmir. Verðið liggur á bilinu 45.000 kr. upp í ca. 500.000 kr. án VSK. Það ræðst einkum af afkastagetunni og/eða nákvæmni innbyggðu klukkunnar. Hér eru nokkur dæmi (uppgefin verð eru án flutningskostnaðar, tolla og VSK):

  • LeoNTP tímaþjónninn frá Leo Electronics er mjög hagkvæm lausn, með GPS-móttakara og tengist beint við netkerfið. Nákvæmni meiri en 1 míkrósekúnda (NTP). Skartar flottum litaskjá og takka til að stilla valkosti. Kostar um 45.000 kr. (300 GBP) og getur svarað allt að 100.000 uppköllum á sekúndu. Fæst einnig fyrir tölvurekka. Helstu gallar: Býður hvorki upp á fjölkerfa móttöku (GNSS) né IPv6 tengingar. Þrátt fyrir þessa annmarka, eru þetta með bestu kaupum á sérhæfðum tímaþjóni og notendur halda varla vatni af ánægju með tækið!

  • TM2000A GPS NTP/PTP Time Server frá Timemachines er mjög hagkvæm lausn, með GPS-móttakara og tengist beint við netkerfið. Nákvæmni meiri en 0,1 millisekúnda (NTP) og allt að 3 míkrósekúndur (PTP). Kostar um 60.000 kr. (500 USD). Hugmót notar einn slíkan til að svara uppköllum á time.hugmot.is (Stratum 1) og hefur hann reynst býsna vel. Hann er með OCXO viðmiðunarklukku til að tryggja réttan tíma ef GPS-læsing næst ekki (t.d. ef loftnet bilar eða fáir gervihnettir eru í sjónmáli). Aköst allt að 750 beiðnir á sekúndu. Það sem gerir þennan tímaþjón sérstakan, er að hann býður upp á PTP (Precision Time Protocol) sem gefur tækifæri á enn nákvæmari tímastillingum á staðarneti, jafnvel niður á +/- 3 míkrósekúndur.

  • T300 GPS NTP Server frá TimeTools kostar um 150.000 kr. (1.150 USD) og er með innbyggðum GPS-móttakara. Nákvæmni um 3 míkrósekúndur og getur þjónað um 100.000 tækjum (biðlurum). Fæst einnig með langbylgju-móttakara (DCF77 eða MSF) fyrir aukið rekstraröryggi. Frávik á dag ef samband næst ekki við viðmið er ekki gefið upp. Hentar vel fyrir kröfuharða notendur, sem vilja samt halda kostnaði í hófi.

  • T500 GPS/GLONASS/BeiDou/Galileo Dual-LAN NTP server frá TimeTools kostar um 190.000 kr. (1.570 USD) og er með innbyggðum GNSS-móttakara. Kemur með TCXO viðmiðunarklukku og tveimur Ethernet-tengjum. Nákvæmni um 3 míkrósekúndur og getur þjónað um 100.000 tækjum (biðlurum). Fæst einnig með langbylgju-móttakara (DCF77 eða MSF) fyrir aukið rekstraröryggi. Frávik á dag ef samband næst ekki við viðmið er ekki gefið upp, en TCXO tryggir aukna fastheldni (e. holdover). Hentar vel fyrir kröfuharða stórnotendur, sem vilja gæði og öryggi án óhóflegs tilkostnaðar.

  • Unison GPS Network Time Server frá Endrun Technologies kostar um 200.000 kr. og er með innbyggðum GPS-móttakara. Nákvæmni 10 míkrósekúndur og afkastageta a.m.k. 500 beiðnir/sekúndu (ekki gefið upp nákvæmlega). Ef samband næst ekki við viðmið, er frávik um 10 ms á dag. Hentar vel fyrir kröfuharða notendur, sem eru tilbúnir að borga fyrir gæði.
    Endrun Technologies býður upp á öflugri tímaþjóna fyrir þá sem gera enn meiri kröfur.

  • SyncServer S200 frá Symmetricom kostar frá rúmum 300.000 kr. og er með innbyggðum GPS-móttakara. Nákvæmni um 50 nanósekúndur og afkastageta um 3.200 beiðnir/sekúndu, gegnum þrjár sjálfstæðar nettengingar. Ef samband næst ekki við viðmið, er frávik um 21 ms á dag. Með OXCO sem kostar um 60.000 kr. aukalega, fæst 1 ms stöðugleiki/dag. Rúbídíum atóm-klukka fáanleg. Innbyggt takkaborð og skjár fyrir umsýslu. Þessi er fyrir mjög kröfuharða notendur, sem eru tilbúnir að borga fyrir gæði.
    Symmetricom býður upp á enn öflugri tímaþjóna, og fer verðið eftir því.

     

Þú getur fundið enn fleiri slíkar lausnir, með því að leita í Google að "Network Time Servers".

 
Til baka á yfirlit  

 

© 2007-2019, Hugmót ehf - Allur réttur áskilinn